mánudagur, 29. júlí 2013

Yndislegt sumarfrí

Við erum búin að vera í sumarfríi og það er yndislegt.  Það er nauðsynlegt að komast svolítið í frí og kúpla frá rútínunni og leyfa frelsinu að vera við völd.  Við fjölskyldan fórum austur á land og vorum þar í 5 daga í útilegu í Atlavík.  Þar þvældumst við um nærliggjandi staði og heimsóttum meðal annars Reyðarfjörð, Eskifjörð og Neskaupsstað. Fórum í sund þar og sundlaugin er meiriháttar, flott aðstaða fyrir barnafólk og krakkarnir skemmtu sér mjög vel sem og við foreldrarnir.  Við ókum líka að Kárahnjúkavirkjun sem við höfðum ekki séð áður og komum svo við á Skriðuklaustri, menningarsetri og sögustað.  Sagan er heilmikil, umhverfið dásamlegt og ekki má gleyma að nefna hádegisverðarhlaðborðið sem íslensk matargerð er í hávegum höfð og lögð áhersla á að nota hráefni af svæðinu.  Hef heyrt að kaffihlaðborðið sé ekki síðra!  Við vorum einstaklega heppin með veðrið, held að hitinn hafi ekki farið undir 18 gráður meðan við vorum á þessum slóðum.

Við ókum síðan áleiðis í borgina með tveggja nátta stoppi í Skaftafelli, sem er algjör náttúruperla, svo dásamlegt að vera þar innan um fjöllinn, jöklana og fallega gróðurinn.  Við gengum að Svartafossi og eyddum þar dágóðum tíma og svo busluðu krakkarnir við Hundafoss, ætluðum ekki að ná þeim þaðan. Það er augljóst að Skaftafell markaðssetur sig sem stað fyrir erlenda ferðamenn því ég hugsa að 80% af fólkinu á tjaldstæðinu hafi verið útlendingar.  Í sjálfu sér fíluðum við það mjög vel, tjaldstæðið er stórt og nóg pláss svo við höfum næstum heila flöt út af fyrir okkur sem gaf krökkunum heilmikið leikpláss til að spila kubb og fótbolta.  Hins vegar söknuðum við þess að sjá ekkert leiksvæði þarna, en það er líklega partur af þessu öllu saman að hafa ekki slíkt.

Við komum svo heim og stoppuðum þar í 4 klst og pökkuðum fyrir útilegum í Varmalandi með vinkonum og fjölskyldum þeirra.  Þar vorum við líka einstaklega heppin með veðrið á föstudeginum og svo ekki sé talað um laugardaginn.  Fórum að fossinum Glanna og kíktum í Paradísarlautina og fórum niður að ánni þar sem krakkarnir busluðum.  Eyddum svo kvöldinu í spjall, kubb keppni og meira spjall.  Snilldar útilega sem svo sannarlega er komin til með að vera fastur liður ár hvert.

Meðfylgjandi eru nokkrar myndir úr ferðalaginu okkar.








föstudagur, 19. júlí 2013

Sumarið er tíminn...

Við skruppum upp á Skaga í afmæli í dag í fjölskyldunni og áttum þar góðan seinnipart og kvöldstund. Krakkarnir nutu þessa að leika sér saman meðan við fullorðna fólkið nýttum tímann og spjölluðum um allt á milli himins og jarðar.  Á leiðinni heim mættum við þessari fallegu álftafjölskyldu sem var að spássera um og njóta sumarkvöldsins.  Þegar þeim þótti áhugi okkar orðinn óþægilega mikill flúðu þau út á tjörnina í öruggt skjól.  Þessi sjón gladdi smáfólkið í bílnum ekki minna en okkur fullorðna fólkið.



laugardagur, 13. júlí 2013

Sumarfrí

Loksins er langþráð sumarfrí skollið á, yndislegt af fá tækifæri til að kúpla alveg frá og njóta lífsins með fjölskyldunni. Við erum lítið búin að plana fríið, stefnan er þó sett á að fara norður á Siglufjörð og í Héðinsfjörð, skreppa í Hólminn og fara í eina eða tvær útilegur. Síðan er ætlunin að eiga góða daga heima við, það finnst mér afar mikilvægt líka.

Í dag fagna tengdaforeldrar mínir 45 brúðkaupsafmæli og ætlum við að gleðjast með þeim í kvöld, ásamt fleirum úr fjölskyldunni.
Læt hér fylgja með eina mynd frá Þjóðbúningadegi sem haldinn var í Hólminum í dag.


þriðjudagur, 9. júlí 2013

Ræktun á matjurtum

Þetta byrjaði smátt fyrir þremur árum eða svo, einn kassi með svolitlu af sallati, hefur svo færst í aukana og núna eru svalirnar næstum fullar af pottum með matjurtum og kryddjurtum.  Ég hef óskaplega gaman af þessu og fátt eins yndislegt og að fara út á svalir og taka upp svolítið sallat til að hafa með kvöldmatnum.  Það sem ég er með núna er:

  • lollo rosso
  • lambhagasallat
  • mizuna kál 
  • sinnepskál
  • ...eitt sem ég man ekki hvað heitir :-)
Það sem bættist svo við um helgina var gulrófur og hnúðkál, aðallega af því mig langaði að prófa og svo var þetta líka á útsölu svo ég gerði góð kaup.  Þessu til viðbótar er ég svo með myntu, steinselju, graslauk og timian.  Mizuna kálið vex eins og enginn sé morgundagurinn og sama má segja um sinnepskálið.  Báðar tegundirnar eru frekar sterkar á bragðið en æðislegar með öðru sallati.  Mæli með að þið prófið .  Mun pottþétt taka það aftur næsta sumar.

Hér er svo smá sýnishorn af svölunum

laugardagur, 6. júlí 2013

Fótboltamót á Laugarvatni

Við skruppum á fótboltamót á Laugarvatni fyrir hálfum mánuði og áttum þar yndislega daga í dásamlegu veðri.  Guttinn okkar var að keppa og gekk liðinu hans alveg ágætlega.  Þegar við vorum ekki á vellinum eyddum við tímanum í Grímsnesinu í sumarbústaði með tengdaforeldrunum.  Hér má sjá nokkrar skemmtilegar myndir frá helginni.






fimmtudagur, 4. júlí 2013

Sallat beint af svölunum

Við keyptum svolítið af forræktuðu grænmeti sem við erum að rækta á svölunum hjá okkur. Þrátt fyrir mikla værutíð það sem af er sumri er sprettan gífurlega góð og við nánast með brakandi, ferskt og bragðmikið sallat með hverri máltíð. Það er svo sannarlega lúxus.

             

Sumarið er tíminn...

...nú styttist í sumarfríið og ég tel niður eins og krakkarnir mínir telja niður til jólanna í desember.  Við ætluðum okkur að fara í fyrstu útilegu sumarsins um helgina en veðurguðirnir hafa séð til þess að svo verði ekki svo eitthvað sniðugt ætlum við okkur að gera í staðinn.

Fyrsta bloggið mitt

Í nokkur ár hef ég haldið úti síðu á barnalandi þar sem ég hef haldið utan um ýmislegt sem hefur drifið á daga okkar fjölskyldunnar síðustu árin.  Nú hefur umhverfinu þar verið breytt að mínu mati til hins verra og í nokkurn tíma hef ég því verið að hugsa um hvort ég ætti að halda úti síðu eða ekki.  Niðurstaðan er komin, ætla að prófa þennan miðil og sjá hvernig gengur.  Það virðist ekki flókið að setja upp síðu hér, svo þá er bara að stinga sér í djúpu laugina og byrja.