sunnudagur, 25. ágúst 2019

Vika 1 í vegferð til einfaldari lífstíls

Eftir að ég skrifaði síðasta pistil og jafnframt þann fyrsta, í vegferð í átt að einfaldari lífstíls, þá fórum við fjölskyldan í stutt sumarfrí svo fyrsta vikan hófst ekki af sama krafti og ég hafði hugsað mér.  Til þess að friða sálina, og halda mér við efnið, þá tók ég létta tiltekt í eldhúsinu.  Tiltektin fólst í því að losa út skálar, glös og annan borðbúnað sem ég hef ekki notað heillengi og sé í raun ekki fram á að nota neitt.  Jafnframt áttum við hnífapör til daglegs brúks fyrir líklega 20 manna fjölskyldu, bæði nýleg og svo samtíning frá því við hófum búskap.

Ég flokkaði hnífapörin og úr varð myndarlegasta hrúga sem ég fann út að ég myndi ekki nota.  Ég setti inn fyrirspurn á facebook grúppu sem snýr að endurvinnslu hvers konar og spurði út í það hvert maður gæti komið þessu með það að markmiði að þessi hlutir öðluðust framhaldslíf.  Ýmsar góðar ábendingar komu s.s. Hertex, Sorpa, Kristniboðssambandið og fleiri álíka staðir.  Innan um þessar fínu ábengingar sem ég fékk kom beiðni frá ungri konu um að hún væri til í að taka þetta, og nokkrum dögum síðar kom hún og sótti hnífapörin.  Hún sagðist myndu fara í gegnum þetta og taka það sem henni litist á og koma restinni þá í Sopru.  Ávinningurinn af þessu var sá að ég fékk meira pláss í hnífaparaskúffunum og það sem ég þurfti ekki lengur að nota fékk framhaldslíf.  Þótt þetta hafi nú ekki verið merkilegir hlutir þá engur að síður eitthvað sem gott að fór á góðan stað.

Síðan tók ég létta tiltekt í þvottahúsinu, fór yfir öll ullarföt fjölskyldunnar og tók út það sem var orðið of lítið á krakkana, þau ullarföt fá framhaldslíf hjá mági mínum og konu hans sem eru með þrjá litla krakka.  Síðan þvoði ég dallana sem við notum fyrir óhreint tau og tók til ofan á skáp sem við erum með fyrir íþróttaföt krakkanna.  Það sást sko ekki í borðplötuna fyrir alls konar fatnaði og öðru dóti.

En planið þessa vikuna er að ljúka yfirferðinni í eldhúsinu og það sem ég sé helst fyrir mér er að losa út enn frekari borðbúnað sem við notum ekki, losa eina skúffu sem er full af alls konar bökunarformum og öðru því tengdu og setja allar slíkar vörur í plastkassa inn í bílskúr.  Við notum þessar vörur ekki það oft að það er betra að fá skúffuplássið fyrir þá hluti sem við notum dags daglega.

laugardagur, 24. ágúst 2019

Síðustu dagar sumarfrísins

Við fjölskyldan skelltum okkur norður í land og eyddum þar viku tíma, fyrst í Fnjóskadalnum og síðan í Héðinsfirði, en þar eigum við lítinn sumarbústað.  Það er ekkert lítið sem það er notalegt og ekki síður gott fyrir alla fjölskylduna að aftengjast tækjum og tólum, rafmagni og hita og lifa svolítið frumstætt. Reyndar höfðum við hita og rafmagn í sumarbústaðnum í Fnjóskadal, en þar var hins vegar ekki símasamband og ekki hægt að horfa á sjónvarpið heldur.  Í Héðinsfirði er varla heldur símasamband, ekkert rafmagn svo við hitum upp og eldum með gasi.  Það var ekki að sjá að nokkrum manni leiddist, við lásum, spiluðum, og horfðum reyndar á eina DVD mynd sem við keyptum á 300 kr á flóamarkaðinum í Dæli, Sigluvík auk þess sem var spjallað um lífsins gagn og nauðsynjar.

Flóamarkaðurinn í Dæli í Sigluvík er frábær, hefur verið starfræktur á sumrin í 12 ár og þar er að finna allt á milli himins og jarðar s.s. bolla, diska, búsáhöld, skrautmuni, bækur fatnað, húsgögn og fleira.  Ef þú ert á ferðinni á Akureyri er vel þess virði að kíkja við, en opið er á sumrin og þá um helgar.

En annars mættu krakkarnir á skólasetningu í gær, föstudag og svo byrjar skólinn á mánudaginn, svo þá má með sanni segja að rútínan hefjist aftur og tökum við henni fagnandi, enda alltaf gott að fá rútínuna inn í lífið eftir frábært og viðburðaríkt sumar.

laugardagur, 10. ágúst 2019

Mikilvægustu hlutirnir í lífinu eru ekki hlutir - vegferð til einfaldari lífstíls

Í allnokkurn tíma hef ég ætlað mér að taka heimilið í gegn með það að markmiði að einfalda, hafa bara hluti í kringum mig sem ég nota og þykja fallegir.  Ég er þannig gerð að ég vil hafa hreint og snyrtilegt í kringum mig, og fallega hluti, en í gegnum árin hefur húsið smám saman orðið að einni stórri geymslu.

Fyrir þremur árum, stóð ég frammi fyrir því, ásamt systkinum mínum, að fara í gegnum dánarbú foreldra okkar sem létust með tæplega þriggja mánaða millibili.   Á meðan heilsan var enn til staðar, tóku þau húsið í gegn og losuðu sig við óþarfa dót og hluti sem ekki voru í notkun eða ekki lengur þörf fyrir.  Að mörgu leyti var mamma á undan sinni samtíð en margt af því sem hún tók úr umferð kom hún í aur í Kolaportinu, sem þá var undir Seðlabankanum, og eru 26 ár síðan það var.  Sjaldan eða aldrei hafði sést svona vandaður og fínn fatnaður í Kolaportinu, þveginn og straujaður, og seldur á mjög hagkvæmu verði.

Þrátt fyrir tiltekt og einföldun í öllu húsinu, beið okkar systkina töluverð vinna við að fara í gegnum lífið þeirra í formi alls konar hluta.  Í raun var ekkert óeðlilegt við það, enda foreldrar mínir búnir að búa sér heimili í 55 ár.  Það er einhvern vegin svo að maður safnar dóti allt sitt líf sem svo einhver annar (börnin) þurfa að fara í gegnum og taka ákvörðun um hvað skuli eiga og hverju skuli henda.

Með þessa reynslu í farteskinu og það að lágmarka það dót og þá hluti sem börnin þurfa að fara í gegnum í framtíðinni, ásamt því að vera orðin hundleið á því að geta ekki opnað skúffu eða skáp án þess að fá eitthvað drasl í andlitið hef ég tekið ákvörun um að nota næstu 52 vikur í að einfalda heimilishaldið, herbergi fyrir herbergi, skúffu fyrir skúffu, skáp fyrir skáp.  Til þess að halda mér við efnið ætla ég að blogga vikulega um framganginn, hvað gengur vel og hvað gengur illa og ýmsa praktíska hluti við að einfalda heimilishaldið og öðlast frelsi á ný.





þriðjudagur, 6. ágúst 2019

flow

Snemma í vor datt ég niður á ansi skemmtilegt og áhugavert tímarit í Eymundsson, þegar ég settist þar niður í einn kaffibolla og fletti í gegnum nokkur tímarit.  Tímaritið heitir flow er er gefið út í Hollandi. Í tímaritinu snýst að mestu um að þora að fylgja hjartanu, því þá gerast bestu hlutirnir í lífinu, en einmitt þannig varð þetta tímariti til.  Efnistökin eru um að þora að gera öðruvísi, takast á við nýjungar og áskoranir í lífinu, daglegt líf, jákvæða sálfræði, núvitund, hugmyndaauðgi og það fallega í hinu ófullkomna.  Hverju tímariti fylgja litlar gjafir úr pappír hvers konar, s.s. svo sem litlar myndi, póstkort og annað í þeim dúr.  Tímaritið er prentað á ólíkar tegundir af pappír svo blaðsíðurnar eru ekki allar eins, sem gerir það á einhvern máta svo skemmtilegt að fletta.

Ég féll kylliflöt fyrir tímaritinu og gerðist áskrifandi nánast um leið, því mig langaði að soga í mig meira af þeim fróðleik sem borinn er á borð í þessu yndislega tímariti.

En hvað er flæði (flow)?  Flæði er hugarástand sem fólk kemst í þegar það einbeitir sér að krefjandi viðfangsefni sem það ræður vel við.  Fólk verður hugfangið, ákaft og öðlast miklá ánægju í lífinu. Allir geta komist í þetta hugarástand, börn, fullorðnir, gamlir sem ungir.  Læt hér mynd fylgja með af eintakinu af Flow sem kom út í júlí.  Ég er strax farin að hlakka til að næsta eintak detti inn um lúguna.






föstudagur, 2. ágúst 2019

Lífsmark

Ég hef lítið sem ekkert skrifað hér inn undanfarið (undanfarin ár) en er nú að velta fyrir mér hvort ég eigi að halda blogginu úti og þá hver stefnan eigi að vera, altso tilgangur og margmið bloggsins.  Ætlunin á sínum tíma var bara að blogga um daglegt líf og það sem ég væri að gera hverju sinni en sökum anna dó bloggið svo gott sem.  Ég er hins vegar að hugsa um að gefa mér svolítinn tíma í að hugsa hvort og þá hvernig ég vil notað það, og taka ákvörðun í kjölfarið hvort ég loki því að haldi því áfram úti.

mánudagur, 19. janúar 2015

Nýtt ár, ný og skemmtileg verkefni

Það er alltaf gaman á tímamótum og einhverra hluta vegna marka áramótin í huga mér stærstu tímamótin ár hvert.  Þá er litið yfir farinn veg og ég hef haft gaman af því að setja niður nokkur markmið fyrir nýtt og komandi ár.  Markmiðin hingað til hafa bæði verið stór og smá.  Stærstu markmið ársins 2014 voru að huga almennilega að heilsunni og hlaupa 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu, en ég hafði aldrei hlaupið neitt markvisst þegar ég ákvað þetta.

Ég skráði mig á 12 mánaða  líkamsræktarnámskeið og var samviskusöm og dugleg að mæta í tímana. Lét svo slag standa þremur dögum fyrir Reykjavíkurmaraþonið að skrá mig en ég hafði bara æft hlaup í um 3 vikur markvisst. Var sannfærð um að það myndi taka mig daginn að komast í mark :-)  10 kílómetrana fór ég, engin met voru í hættu en stærsti sigurinn var að fara þessa 10 km og leið mér sem heimsmeistara þegar ég hljóp yfir marklínuna og líðandin hreint stórkostleg á eftir..  Ýmis önnur markmið setti ég mér, öllu minni, sumum þeirra náði ég öðrum ekki.

En árið 2015, hvað ætla ég að gera þá?

  • Ég ætla aftur að hlaupa 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu og byrja að æfa markvisst í síðasta lagi í byrjun febrúar.  
  • Ég ætla að vera dugleg að vinna ljósmyndabækur fyrir þau ár og frí sem ég á eftir að gera.
  • Við fjölskyldan ætlum að eiga fleiri útistundir með fjölskyldunni á árinu.  Það er svo hollt og gott fyrir sálina og truflunin miklu minni en þegar maður er heima við.
Ég er svo með nokkur önnur minni markmið svona fyrir mig til að sigrast á.   

mánudagur, 22. desember 2014

Samverustundir fjölskyldunnar í desember

Fyrir nokkrum árum síðan saumaði móðir mín út fallegt jóladagatal með snjókarli og jólasveini, dagatalið er líklega 1.5 meter á lengdi.  Í það hef ég hengt miða núna í desember með skemmtilegum samverustundum fjölskyldunnar. Það er auðvelt að gleyma sér í jólaundirbúningnum og jólastressinu en gleyma því sem mestu skiptir að gera eitthvað skemmtilegt saman.  Krökkunum hefur fundist þetta ansi skemmtilegt og þessi hefð sér til þess að í desember gerum við alltaf eitthvað skemmtilegt saman.  Það þarf ekki að vera mikið og flókið, höfum til dæmis farið á skauta saman, pakkað inn jólagjöfum saman, verið með pizzukvöld við kertaljós, skroppið í jólaljósabíltúr og fleira í þeim dúr.

Ég rakst á ansi skemmtilega hugmynd af svipuðum toga á vafri mínu um netheima, gæti alveg hugsað mér að útfæra hana fyrir næstu jól.  Hún er þannig að útbúið er lítið hefti með samverustundum eða hugmyndum að öðru skemmtilegu á aðventunni.  Þetta þarf ekki endilega að vera bundið við desember mánuð, heldur hægt að gera hvenær sem er og gefa til dæmis krökkunum sínum.  Hérna er tengill á þessa skemmtilegu hugmynd.