laugardagur, 10. ágúst 2019

Mikilvægustu hlutirnir í lífinu eru ekki hlutir - vegferð til einfaldari lífstíls

Í allnokkurn tíma hef ég ætlað mér að taka heimilið í gegn með það að markmiði að einfalda, hafa bara hluti í kringum mig sem ég nota og þykja fallegir.  Ég er þannig gerð að ég vil hafa hreint og snyrtilegt í kringum mig, og fallega hluti, en í gegnum árin hefur húsið smám saman orðið að einni stórri geymslu.

Fyrir þremur árum, stóð ég frammi fyrir því, ásamt systkinum mínum, að fara í gegnum dánarbú foreldra okkar sem létust með tæplega þriggja mánaða millibili.   Á meðan heilsan var enn til staðar, tóku þau húsið í gegn og losuðu sig við óþarfa dót og hluti sem ekki voru í notkun eða ekki lengur þörf fyrir.  Að mörgu leyti var mamma á undan sinni samtíð en margt af því sem hún tók úr umferð kom hún í aur í Kolaportinu, sem þá var undir Seðlabankanum, og eru 26 ár síðan það var.  Sjaldan eða aldrei hafði sést svona vandaður og fínn fatnaður í Kolaportinu, þveginn og straujaður, og seldur á mjög hagkvæmu verði.

Þrátt fyrir tiltekt og einföldun í öllu húsinu, beið okkar systkina töluverð vinna við að fara í gegnum lífið þeirra í formi alls konar hluta.  Í raun var ekkert óeðlilegt við það, enda foreldrar mínir búnir að búa sér heimili í 55 ár.  Það er einhvern vegin svo að maður safnar dóti allt sitt líf sem svo einhver annar (börnin) þurfa að fara í gegnum og taka ákvörðun um hvað skuli eiga og hverju skuli henda.

Með þessa reynslu í farteskinu og það að lágmarka það dót og þá hluti sem börnin þurfa að fara í gegnum í framtíðinni, ásamt því að vera orðin hundleið á því að geta ekki opnað skúffu eða skáp án þess að fá eitthvað drasl í andlitið hef ég tekið ákvörun um að nota næstu 52 vikur í að einfalda heimilishaldið, herbergi fyrir herbergi, skúffu fyrir skúffu, skáp fyrir skáp.  Til þess að halda mér við efnið ætla ég að blogga vikulega um framganginn, hvað gengur vel og hvað gengur illa og ýmsa praktíska hluti við að einfalda heimilishaldið og öðlast frelsi á ný.





Engin ummæli :

Skrifa ummæli