laugardagur, 24. ágúst 2019

Síðustu dagar sumarfrísins

Við fjölskyldan skelltum okkur norður í land og eyddum þar viku tíma, fyrst í Fnjóskadalnum og síðan í Héðinsfirði, en þar eigum við lítinn sumarbústað.  Það er ekkert lítið sem það er notalegt og ekki síður gott fyrir alla fjölskylduna að aftengjast tækjum og tólum, rafmagni og hita og lifa svolítið frumstætt. Reyndar höfðum við hita og rafmagn í sumarbústaðnum í Fnjóskadal, en þar var hins vegar ekki símasamband og ekki hægt að horfa á sjónvarpið heldur.  Í Héðinsfirði er varla heldur símasamband, ekkert rafmagn svo við hitum upp og eldum með gasi.  Það var ekki að sjá að nokkrum manni leiddist, við lásum, spiluðum, og horfðum reyndar á eina DVD mynd sem við keyptum á 300 kr á flóamarkaðinum í Dæli, Sigluvík auk þess sem var spjallað um lífsins gagn og nauðsynjar.

Flóamarkaðurinn í Dæli í Sigluvík er frábær, hefur verið starfræktur á sumrin í 12 ár og þar er að finna allt á milli himins og jarðar s.s. bolla, diska, búsáhöld, skrautmuni, bækur fatnað, húsgögn og fleira.  Ef þú ert á ferðinni á Akureyri er vel þess virði að kíkja við, en opið er á sumrin og þá um helgar.

En annars mættu krakkarnir á skólasetningu í gær, föstudag og svo byrjar skólinn á mánudaginn, svo þá má með sanni segja að rútínan hefjist aftur og tökum við henni fagnandi, enda alltaf gott að fá rútínuna inn í lífið eftir frábært og viðburðaríkt sumar.

Engin ummæli :

Skrifa ummæli