sunnudagur, 25. ágúst 2019

Vika 1 í vegferð til einfaldari lífstíls

Eftir að ég skrifaði síðasta pistil og jafnframt þann fyrsta, í vegferð í átt að einfaldari lífstíls, þá fórum við fjölskyldan í stutt sumarfrí svo fyrsta vikan hófst ekki af sama krafti og ég hafði hugsað mér.  Til þess að friða sálina, og halda mér við efnið, þá tók ég létta tiltekt í eldhúsinu.  Tiltektin fólst í því að losa út skálar, glös og annan borðbúnað sem ég hef ekki notað heillengi og sé í raun ekki fram á að nota neitt.  Jafnframt áttum við hnífapör til daglegs brúks fyrir líklega 20 manna fjölskyldu, bæði nýleg og svo samtíning frá því við hófum búskap.

Ég flokkaði hnífapörin og úr varð myndarlegasta hrúga sem ég fann út að ég myndi ekki nota.  Ég setti inn fyrirspurn á facebook grúppu sem snýr að endurvinnslu hvers konar og spurði út í það hvert maður gæti komið þessu með það að markmiði að þessi hlutir öðluðust framhaldslíf.  Ýmsar góðar ábendingar komu s.s. Hertex, Sorpa, Kristniboðssambandið og fleiri álíka staðir.  Innan um þessar fínu ábengingar sem ég fékk kom beiðni frá ungri konu um að hún væri til í að taka þetta, og nokkrum dögum síðar kom hún og sótti hnífapörin.  Hún sagðist myndu fara í gegnum þetta og taka það sem henni litist á og koma restinni þá í Sopru.  Ávinningurinn af þessu var sá að ég fékk meira pláss í hnífaparaskúffunum og það sem ég þurfti ekki lengur að nota fékk framhaldslíf.  Þótt þetta hafi nú ekki verið merkilegir hlutir þá engur að síður eitthvað sem gott að fór á góðan stað.

Síðan tók ég létta tiltekt í þvottahúsinu, fór yfir öll ullarföt fjölskyldunnar og tók út það sem var orðið of lítið á krakkana, þau ullarföt fá framhaldslíf hjá mági mínum og konu hans sem eru með þrjá litla krakka.  Síðan þvoði ég dallana sem við notum fyrir óhreint tau og tók til ofan á skáp sem við erum með fyrir íþróttaföt krakkanna.  Það sást sko ekki í borðplötuna fyrir alls konar fatnaði og öðru dóti.

En planið þessa vikuna er að ljúka yfirferðinni í eldhúsinu og það sem ég sé helst fyrir mér er að losa út enn frekari borðbúnað sem við notum ekki, losa eina skúffu sem er full af alls konar bökunarformum og öðru því tengdu og setja allar slíkar vörur í plastkassa inn í bílskúr.  Við notum þessar vörur ekki það oft að það er betra að fá skúffuplássið fyrir þá hluti sem við notum dags daglega.

Engin ummæli :

Skrifa ummæli